Selfyssingar er komnir með bakið ansi þétt upp við vegginn fræga eftir 2-3 tap á heimavelli gegn lærisveinum Gunnlaugs Jónssonar í Val í kvöld.
Þrjár breytingar voru á byrjunarliði Selfoss frá ósigrinum gegn Fram í síðustu umferð. Stefán Ragnar Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson og Bolou Guessan komu inn í staðinn fyrir Arilíus Marteinsson og Jón Daða Böðvarsson sem eru í banni og Guðmund Þórarinsson sem er á bekknum.
Selfyssingar hófu leikinn af krafti og strax eftir 30 sekúndur fékk Sævar Þór Gíslason færi þegar hann skaut framhjá af markteig. Þar með lauk þátttöku Selfyssinga í fyrri hálfleik en andinn innan vallar og utan var eins og í jarðarför. Það var mikið undir hjá Selfyssingum í þessum leik og því ótrúlegt að sjá hvað liðið var vankað í fyrri hálfleik.
Valsmenn komust yfir á 18. mínútu þegar Jón Vilhelm Ákason skallaði boltann í netið eftir sókn upp hægri kantinn og sendingu á fjærstöng frá Stefáni Eggertssyni, sem Jón stangaði af krafti.
Á 32. mínútu kom annað skallamark þegar Martin Pedersen gaf fyrir frá vinstri og Arnar Sveinn Geirsson skoraði með laglegum skutluskalla. Valsmenn voru þar með komnir í þægilega stöðu og ekki sást til Selfyssinga fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Stefán Ragnar Guðlaugsson sendi fyrir á Sævar Þór en Kjartan Sturluson markvörður var fyrri til boltans.
Selfyssingar gátu ekki annað en bætt sig í síðari hálfleik og virkuðu sprækir á upphafsmínútum hans. Á 54. mínútu björguðu Valsmenn á línu frá Agnari Braga Magnússyni og tíu mínútum síðar fengu Selfyssingar víti þegar boltinn fór í hönd varnarmanns. Viktor Illugason fór á punktinn og skoraði örugglega.
Markið lyfti stemmningunni á vellinum til muna en sú gleði varði aðeins í tvær mínútur. Guðmundur Hafsteinsson kom þá Val í 1-3 þegar hann fékk sendingu innfyrir en markverðinum Jóhanni Ólafi mistókst þar hrapallega að hreinsa frá og Guðmundur var á undan í boltann.
Þessi blauta tuska drap allan takt í Selfossliðinu og næstu mínúturnar voru eign Vals. Þeir hefðu auðveldlega getað bætt við mörkum en Jóhann Ólafur hélt Selfossliðinu inni í leiknum og átti tvær frábærar markvörslur.
Þegar sex mínútur voru til leiksloka slapp Ingþór Guðmundsson í gegn hægra megin og hann renndi boltanum á Sævar Þór sem skoraði af öryggi á fjærstöng. Selfoss lagði allt kapp á sóknarleikinn á síðustu mínútunum með og Viðar Kjartansson fékk gott færi á síðustu andartökum leiksins. Hann slapp inn í teig vinstra megin en var kominn í þröngt færi og Kjartan varði nokkuð auðveldlega frá honum. Lokatölur 2-3.
Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Martin Dohlsten (Viðar Örn Kjartansson +38), Agnar Bragi Magnússon, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson, Jón Guðbrandsson (Ingi Rafn Ingibergsson +84), Jean Stephane YaoYao, Sævar Þór Gíslason (F), Viktor Unnar Illugason, Einar Ottó Antonsson, Guessan Bi Herve (Ingþór Guðmundsson +64).