Um helgina fór fram Íslandsmót unglinga í hópfimleikum á Selfossi. Mótið var fjölmennt en alls tóku 53 lið frá 12 félögum þátt. Keppnin var hörð í mörgum flokkum en hér á eftir eru helstu úrslit.
Í 1. flokki kvenna endaði Selfossliðið í 3. sæti á eftir Gerplu en Stjarnan sigraði með yfirburðum í þessum flokki. Selfossstelpurnar áttu mjög gott mót og sýndu að liðið býr yfir miklum og góðum karakter.
Í 1. flokki blandaðra liða lét Selfoss í lægri hlut fyrir Gerplu en munurinn á milli liðanna var 0,3 stig sem er vart til að tala um. Selfossliðið átti ekki sitt besta mót og á nóg inni.
Í 2. flokki kvenna hömpuðu stelpurnar Íslandsmeistaratitli. Þar var einnig örmjótt á munum en þær sigruðu með 0,37 stiga mun en lið Stjörnunnar varð í 2. sæti og lið Gerplu í 3. sæti. Ekkert liðanna í efstu sætunum voru að keyra sitt besta mót og nóg inni hjá þeim öllum. Það verður því spennandi að fylgjast með vormótinu og sjá hvernig deildarkeppnin endar.
Í 2. flokki blandaðra liða varð Selfoss mix í 2. sæti á eftir liði Gerplu en aðeins 1,9 skildu liðin að. Selfossliðið átti fínt mót og mun án efa koma sterkt til leiks á vormótinu.
Í 3. flokki A-deild kepptu tvö lið fyrir hönd Selfoss þ.e. Selfoss 6 og Selfoss 8. Selfoss 6 voru 0,13 stigum frá því að hampa Íslandsmeistaratitli en urðu í 2. sæti eftir mjög flott mót. Þær voru að bæta við sig heilmiklum erfiðleika og gerðu það vel. Selfoss 8 varð í 4. sæti en þær eru greinilega á beinu brautinni og komu mjög sterkar inná þetta mót og halda sér uppi í A-deild.
Í 4. flokki kvenna voru þrjú lið frá Selfossi í kepppni þ.e. Selfoss 9, Selfoss 10 og Selfoss 11. Selfoss 9 gerðu sér lítið fyrir og hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum annað árið í röð 1,4 stigum á undan næsta liði sem var FIMA frá Akranesi. Þessi lið hafa átt í jafnri og spennandi keppni um nokkurt skeið. Röðin frá haustmótinu snérist við en þá sigraði lið Hattar frá Egilsstöðum en núna enduðu þær í þriðja sæti og FIMA í öðru sæti. Lið Selfoss 10 stóð sig mjög vel enduðu í 7. sæti. Þær munu því keppa í B-deild á vormótinu á Akureyri. Selfoss 11 stóðu sig líka mjög vel en þær höfnuðu í 5. sæti á þessu móti. Liðið er mjög ungt og efnilegt og þær eiga nóg inni.
Í yngri flokki drengja vorum við með eitt lið sem stóð sig frábærlega en þeir hömpuðu Íslandsmeistaratitli í flokknum en lið Stjörnunnar beið lægri hlut fyrir drengjunum. Strákarnir sigruðu með nokkrum yfirburðum en alls skildu 7 stig liðin að í fyrsta og öðru sæti.
Í 5. flokki voru þrjú lið frá Selfossi en í þessum flokki fá allir viðurkenningarpening fyrir þátttökuna. Það var gaman að sjá þessar ungu og efnilegu stelpur stíga sín fyrstu spor í keppni og ljóst að framtíðin er björt.
Mótið gekk í alla staði vel og ekki hægt að framkvæma það án aðkomu fjölda sjálfboðaliða sem stóðu vaktina alla helgina. Á heimasíðu UMFS eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.