Lið Selfoss varð í 3. sæti í flokki stúlkna 2011 á handknattleiksmótinu Norden Cup, sem lauk í Gautaborg í Svíþjóð í morgun.
Selfoss sigraði Elverum frá Noregi örugglega í bronsleiknum, 22-13. Selfossstúlkurnar höfðu farið taplausar í gegnum riðlakeppni mótsins en töpuðu í undanúrslitum gegn norska liðinu Bryne. Þær létu sitt eina tap á mótinu ekki á sig fá heldur mættu af fullum krafti í bronsleikinn og unnu sannfærandi sigur.
Selfoss sendi tvö önnur lið til leiks á Norden Cup en drengir 2011 urðu í 5. sæti í sínum aldursflokki og drengir 2010 í 6. sæti í sínum aldursflokki. Öll Selfossliðin fóru ósigruð í gegnum riðlakeppnina og náðu inn í 8-liða úrslitin sem er frábær árangur á þessu sterka móti.