Selfoss vann grannaslaginn

Gerald Robinson skoraði 49 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar heimsóttu Hrunamenn á Flúðir í gærkvöldi og unnu þar mikilvægan sigur í 1. deild karla í körfubolta.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust á um að hafa undirtökin og Hrunamenn voru skrefinu á undan lengst af 2. leikhluta. Selfoss skoraði tvær síðustu körfurnar í fyrri hálfleik og staðan var 45-48 í leikhléi.

Hrunamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en Selfyssingar lokuðu 3. leikhluta með 12-2 áhlaupi og breyttu stöðunni í 70-74. Heimamenn jöfnuðu 74-74 í upphafi 4. leikhluta en eftir það voru Selfyssingar með frumkvæðið allt til leiksloka, þó að munurinn hafi aldrei verið meiri en 9 stig. Gerald Robinson, sem var besti maður vallarins, lauk leiknum á troðslu og tryggði Selfyssingum 97-102 sigur.

Robinson skoraði 49 stig fyrir Selfoss og tók 7 fráköst, Ísak Júlíus Perdue skoraði 19 stig og sendi 11 stoðsendingar og Kennedy Aigbogun skoraði 14 stig og tók 7 fráköst.

Hjá Hrunamönnum var Ahmad Gilbert illviðráðanlegur með 42 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar og Samuel Burt skoraði 27 stig og tók 10 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 4. sæti með 12 stig en Hrunamenn eru í 5. sæti með 10 stig.

Fyrri greinGef sumrinu fullt hús stiga
Næsta greinUngmennaliðið tapaði með tíu