Selfoss vann Stjörnuna 26-27 í spennuleik í Olísdeild karla í handbolta í Garðabænum í kvöld.
Selfoss byrjaði ekki vel í leiknum og Stjarnan komst í 5-1 á upphafsmínútunum. Selfyssingar tóku sig taki og jöfnuðu 6-6 og eftir það var jafnt á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik. Stjarnan skoraði tvö síðustu mörkin í hálfleiknum og staðan var 13-11 í leikhléi.
Selfoss jafnaði strax í upphafi seinni hálfleiks og náði svo fjögurra marka forystu, 15-19. Það tók Stjörnuna dálitla stund að naga niður forskotið en þeir jöfnuðu 24-24 þegar rúmar sex mínútur voru eftir. Lokakaflinn var spennandi en Selfoss var skrefinu á undan. Selfyssingar hefðu getað náð tveggja marka forskoti á lokamínútunni en það gekk ekki og Stjarnan fékk möguleika á að jafna í sinni síðustu sókn. Selfyssingar stóðu vaktina vel á lokasekúndunum og vörnin tók síðasta skot Stjörnunnar.
Guðjón Baldur Ómarsson og Ragnar Jóhannsson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk en Guðjón Baldur var með 100% skotnýtingu annan leikinn í röð. Richard Sæþór Sigurðsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu báðir 4 mörk, Tryggvi Þórisson 2, Einar Sverrisson 2/2 og Hergeir Grímsson 1 en Hergeir sendi hvorki fleiri né færri en 13 stoðsendingar í leiknum.
Vilius Rasimas varði 13/2 skot í mark Selfoss og var með 39% markvörslu.
Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 17 stig en Stjarnan er í 5. sæti með 18 stig.