Seinni dagur héraðsmóts HSK í frjálsum í flokki fullorðinna fór fram síðastliðið mánudagskvöld í Frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika. Umf. Selfoss sigraði heildarstigakeppni mótsins með yfirburðum en um 100 stig skildu að fyrsta og annað sætið.
Ólafur Guðmundsson Selfossi hélt áfram að setja HSK met í sínum aldursflokki, en hann setti ellefu HSK met á fyrri degi og þar af tvö Íslandsmet. Ólafur setti Íslandsmet og þar með HSK met í 60 metra grindahlaupi í flokki 45-49 ára, en hann varð HSK meistari á 9,22 sek. Hann setti einnig HSK met í sama flokki í 200 metra hlaupi, hljóp á 25,63 sek.
Guðmann Óskar Magnússon úr Dímon þríbætti HSK met Ólafs Elí, bróðir síns, í stangarstökki í flokki 45-49 ára, en hann stökk hæst 2,80 metra.
Úrslit stigakeppninnar
1. Selfoss 187 stig
2. Þór 89 stig
3. Dímon 49 stig
4. Þjótandi 7 stig
5. Suðri 4 stig
Aðeins eitt frjálsíþróttamót er eftir á vegum HSK í vetur en það eru Héraðsleikar 10 ára og yngri sem verða haldnir í Hamarshöllinni þann 7. mars næstkomandi og við hvetjum sem flesta krakka til þátttöku á því móti.