Selfoss vann spennandi Suðurlandsslag

Chancellor Calhoun-Hunter sækir að körfu Selfyssinga í kvöld en Birkir Hrafn Eyþórsson er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn buðu upp á bestu skemmtun þegar liðin áttust við í 1. deild karla í körfubolta í Gjánni á Selfossi í kvöld. Eftir hörkuleik höfðu Selfyssingar nauman sigur, 98-96.

Liðin skiptust á um að hafa undirtökin í 1. leikhluta og staðan að honum loknum var 22-20. Hrunamenn byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust í 28-40 en heimamenn bitu frá sér þegar nálgaðist hálfleik og staðan í leikhléi var 49-52.

Leikurinn var jafn í seinni hálfleik, Selfyssingar voru skrefinu á undan í 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða komust Hrunamenn yfir, 83-89. Leikurinn var æsispennandi undir lokin og þegar 44 sekúndur voru eftir komust Selfyssingar yfir aftur, 96-93. Hrunamenn fóru illa með næstu sóknir og Selfyssingar sigruðu að lokum 98-96.

Birkir Hrafn Eyþórsson og Michael Asante voru stigahæstir Selfyssinga með 27 stig og Asante tók 11 fráköst að auki. Ísak Júlíus Perdue skoraði 17 stig.

Hjá Hrunamönnum skoraði Chancellor Calhoun-Hunter 38 stig og tók 10 fráköst. Aleksi Liukko skoraði 20 stig og tók 12 fráköst og Hringur Karlsson skoraði 15 stig.

Fyrri greinSigurinn aldrei í hættu
Næsta greinÍbúakönnun landshlutanna farin af stað