Unglingamót HSK í sundi fór fram í Sundhöll Selfoss síðastliðinn sunnudag og keppendur frá þremur félögum mættu til leiks.
Keppendur 10 ára og yngri kepptu ekki til stiga og fengu þau öll viðurkenningu fyrir þátttökuna. Sundfólk 11 ára og eldri safnaði stigum fyrir sín félög. Selfoss sigraði stigakeppnina með 64 stig, Dímon varð í 2. sæti með 32 stig og Hamar í 3. sæti með 27 stig.
Bikar fyrir mestu bætingu frá síðasta Unglingamóti HSK fékk Nói Sær Guðmundsson, Umf. Selfoss, sem bætti sig um 45,22 sek í 33 m skriðsundi með blöðkum. Hann synti á 1:32,90 mín. árið 2023 en á mótinu í ár synti hann á 47,68 sek.
Úrslit allra greina má sjá á heimasíðu HSK.