
Selfoss vann mikilvægan sigur á FH í toppbaráttu Grill 66 deild kvenna í handbolta á útivelli í kvöld, 22-25.
Selfoss hafði forystuna allan tímann og náði mest fimm marka forskoti. Lokakaflinn vað þó spennandi en FH náði að minnka muninn niður í eitt mark. Selfyssingar spiluðu hins vegar góða vörn og náðu að lokum að landa þriggja marka sigri.
Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8/3 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 7, Tinna Traustadóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir og Agnes Sigurðardóttir skoruðu allar 2 mörk og Elín Krista Sigurðardóttir 1.
Henriette Östergård varði 10 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 1/1 skot og var með 50% markvörslu.
Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss enn í 3. sæti deildarinnar, með 30 stig en FH hefur 31 stig í 2. sæti. Þrjár umferðir eru eftir í deildinni og liðið í 2. sæti mun tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni en ungmennalið Fram er í toppsætinu og getur ekki farið upp um deild.