Selfoss vann toppslaginn

Jónas Karl Gunnlaugsson skoraði 5 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Þór Akureyri í uppgjöri efstu liða 1. deildar karla í handbolta í Set-höllinni í dag. Eftir hörkuleik vann Selfoss öruggan sigur, 34-28.

Jafnt var á nánast öllum tölum fyrstu tíu mínúturnar upp í 6-6 en þá sýndu Selfyssingar klærnar og slitu sig frá Þórsurum. Munurinn varð mestur fjögur mörk og staðan í hálfleik var 17-13.

Selfoss leiddi allan seinni hálfleikinn með 4-5 mörkum en Þórsarar höfðu fulla trú á verkefninu allt til loka og heimamenn þurftu að halda fullri einbeitingu þar til lokaflautan gall.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Jónas Karl Gunnlaugsson skoraði 5, Sölvi Svavarsson og Jason Dagur Þórisson 4, Valdimar Örn Ingvarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Hákon Garri Gestsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Álvaro Mallols, Guðjón Baldur Ómarsson, Árni Ísleifsson og markvörðurinn Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu allir 1. Jón Þórarinn varði 6 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 5.

Selfoss er með 20 stig í toppsæti deildarinnar en Þór í 2. sæti með 18 stig og Þórsarar eiga leik til góða.

Fyrri greinEldur kviknaði í djúpsteikingarpotti
Næsta grein„Aðgerð sem þessi mun breyta lífi mínu“