Selfoss og Valur skildu jöfn í Olísdeild karla í handbolta í gærkvöldi, 27-27 að Hlíðarenda. Lokakafli leiksins var gríðarlega spennandi.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu fimmtán mínúturnar en þá náðu Selfyssingar tveggja marka forskoti, 7-9. Valsmenn tóku öll völd í kjölfarið, gerðu 7-2 áhlaup og leiddu í leikhléi, 14-11.
Selfyssingar mættu illa stemmdir inn í seinni hálfleikinn og Valur jók forskotið í sex mörk, 21-15. Þá tóku Selfyssinga loksins við sér, þéttu varnarleikinn og náðu að minnka forskotið jafnt og þétt. Þegar fimm mínútur voru eftir komst Selfoss yfir, 25-26. Lokamínúturnar voru æsispennandi, Valur jafnaði 27-27 þegar 20 sekúndur voru eftir en Selfyssingar náðu ekki að koma boltanum í netið í lokasókninni.
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Árni Steinn Steinþórsson skoraði 4, Atli Ævar Ingólfsson, Guðni Ingvarsson og Alexander Már Egan 3, Hergeir Grímsson og Magnús Øder Einarsson 2 og Reynir Freyr Sveinsson 1.
Einar Baldvin Baldvinsson varði 17 skot í marki Selfoss og var með 41% markvörslu.