Selfoss vantar eitt stig

Selfyssingar unnu góðan 4-3 sigur á BÍ/Bolungarvík í mögnuðum fótboltaleik á Selfossi í 1. deild karla dag.

Leikurinn byrjaði fjörlega og þegar tvær mínútur voru liðnar af leiknum höfðu Babacar Sarr og Viðar Örn Kjartansson báðir átt dauðafæri.

Fyrstu tuttugu mínúturnar voru annars tíðindalitlar en gestirnir áttu lélegt skot að marki á 8. mínútu sem Stefán Ragnar Guðlaugsson komst fyrir á síðustu stundu. Tíu mínútum síðar átti Jón Daði Böðvarsson bylmingsskot að marki sem Þórður Ingason, markvörður BÍ, átti ekki í miklum vandræðum með.

Jón Daði var líflegasti leikmaður Selfoss í leiknum og fékk nánast auða hlaupabraut upp hægri kantinn. Á 19. mínútu átti hann fasta fyrirgjöf sem fór beint í hendi BÍ manns en vel staðsettur aðstoðardómari flaggaði ekki þrátt fyrir að hafa dæmt hendi á Selfyssinga nokkrum mínútum áður við sömu aðstæður.

Þess í stað brunuðu BÍ/B-arar í sókn og fengu aukaspyrnu. Selfyssingum mistókst að hreinsa og Atli Guðjónsson kom boltanum í netið eftir mikinn hamagang í teignum þar sem brotið var á Jóhanni markverði en ekkert dæmt.

Eftir mark gestanna settu Selfyssingar í gírinn og áttu nokkrar glæsilegar sóknir eftir þetta þar sem boltinn gekk vel manna á milli. Á 24. mínútu átti Jón Daði frábæran sprett inn í teig, sendi fastan bolta fyrir og Michael Abnett setti boltann í þverslána og niður á marklínuna. Boltinn var hins vegar dæmdur inni og Selfyssingar kvörtuðu lítið yfir því.

Selfoss var áfram sterkari aðilinn en á 35. mínútu áttu gestirnir stangarskot eftir aukaspyrnu. Á 43. mínútu átti Babacar Sarr skalla rétt framhjá eftir hornspyrnu en strax á eftir skoruðu gestirnir, töluvert gegn gangi leiksins. Markið var af dýrari gerðinni þar sem Sölvi Gylfason smurði boltanum upp í samskeytin nær með bylmingsskoti af vítateigslínunni vinstra megin.

Staðan var 1-2 í hálfleik en Selfyssingar tóku völdin strax í upphafi seinni hálfleiks og voru sterkari aðilinn framan af. Færin voru þó ekki mörg en á 57. mínútu átti Selfoss góða sókn sem lauk með frábærri fyrirgjöf Joe Tillen beint á Arilíus Marteinsson sem skoraði af stuttu færi.

Tveimur mínútum síðar átti Viðar Örn þrumuskot sem Stokkseyringurinn í marki BÍ varði glæsilega. Selfoss virtist var að taka leikinn en þá svöruðu gestirnir með marki. Selfoss fékk hornspyrnu á 60. mínútu en uppúr henni þrumuðu gestirnir fram á Andra Rúnar Bjarnason sem var einn á móti tveimur Selfyssingum, lék á annan þeirra og skoraði auðveldlega framhjá Jóhanni.

Þriðja mark gestanna var eins og blaut tuska framan í andlit Selfyssinga sem voru nokkra stund að ná sama dampi og áður. Á 75. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu og fyrirliðinn Stefán Ragnar stökk manna hæst í teignum og skoraði með góðum skalla. Fimm mínútum síðar átti Viðar Örn skot í hliðarnetið af stuttu færi og leikurinn aftur að falla með heimamönnum.

Lokamínúturnar voru eign Selfyssinga og á 83. mínútu áttu Jón Daði og Ibrahima Ndiaye báðir skot í sömu sókninni sem Þórður varði glæsilega. Hann réð þó ekkert við gullfallegt skot Joe Tillen mínútu síðar. Joe fékk boltann fyrir utan teig og hamraði hann í hornið framhjá Þórði.

Þar með var sigurinn Selfyssinga en Sævar Þór Gíslason fékk síðasta færi leiksins þegar hann átti gott skot rétt framhjá markinu á 87. mínútu og þar við sat.

Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok en þeir þurfa eitt stig úr síðustu tveimur leikjunum til að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni.

Fyrri greinKristján kjörinn vígslubiskup
Næsta grein„Gaman að skora sigurmarkið“