Selfoss varð af mikilvægum stigum

Það er erfitt að stöðva Hauk Þrastarson en þetta er ein leiðin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss töpuðu með sex marka mun gegn bikarmeisturum FH þegar liðin mættust á Selfossi í kvöld í úrvalsdeild karla í handbolta. Lokatölur urðu 31-37.

FH-ingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik en jafnt var á flestum tölum upp í 6-6 eftir tæpar tólf mínútur. Í kjölfarið náði FH tveggja marka forskoti og í leikhléi var munurinn kominn upp í fjögur mörk, 14-18, en FH skoraði síðustu tvö mörkin í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn varð aldrei spennandi þar sem FH náði mest átta marka forskoti, 23-31 og fátt var um varnir hjá Selfyssingum sem enduðu á því að hirða boltann 37 sinnum úr netinu.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga, hann nýtti sín skot vel og skoraði 10 mörk af línunni. Hergeir Grímsson skoraði 6/4 mörk, Haukur Þrastarson 4 og sendi 8 stoðsendingar, Guðni Ingvarsson skoraði 3 mörk, Magnús Øder Einarsson, Alexander Egan og Reyni Freyr Sveinsson allir 2 og Guðjón Baldur Ómarsson og Ísak Gústafsson skoruðu sitt markið hvor.

Sölvi Ólafsson varði 11/1 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 3 skot og var með 20% markvörslu.

Það er bitist um hvert stig í toppbaráttu deildarinnar og því mikilvægir punktar sem voru í húfi í kvöld en eftir leikinn er Selfoss í 6. sæti deildarinnar með 15 stig en FH er í 3. sæti með 16 stig.

Fyrri greinÞrír staðnir að utanvegaakstri
Næsta greinSkrifað undir samning um ULM 2020 á Selfossi