Selfoss verður með í Evrópubikarnum

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Karlalið Selfoss í handbolta verður með í Evrópubikarnum á komandi keppnistímabili en liðið fékk keppnisrétt í keppninni með því að verða í 4. sæti í Olísdeildinni í vetur.

Það er þó ekki sjálfgefið að lið taki þátt í keppninni, þrátt fyrir að fá keppnisréttinn, en Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, staðfesti við sunnlenska.is í kvöld að Selfyssingar verði með.

„Það er skýr stefna deildarinnar að nýta öll tækifæri til að keppa við sterka andstæðinga og þora að taka slaginn. Þetta er auðvitað stórt verkefni, bæði íþróttalega og fjárhagslega og því mikilvægt að allir leggist á eitt. Eftir fund með þjálfurum og leikmönnum liðsins er ljóst að þeir eru spenntir fyrir verkefninu og tilbúnir í slaginn og þær viðbótaræfingar sem þetta krefst. Þeir eru líka tilbúnir í vinnu við að afla fjár til að kosta verkefnið ásamt stjórn deildarinnar og stuðningsmönnum,“ segir Þórir.

Mikil reynsla sem nýtist hópnum
Selfoss hefur talsverða reynslu af þátttöku í Evrópukeppnum en liðið tók síðast þátt árin 2018 og 2019.

„Sú þátttaka skilaði mikilli reynslu sem meðal annars nýttist hópnum í baráttunni við að landa Íslandsmeistaratitlinum árið 2019.  Verkefnið er stórt og krefjandi og deildin mun þurfa góða samstöðu stuðningsmanna og samfélagsins alls þegar fyrsti leikur verður, væntanlega í byrjun september,“ segir Þórir og bætir við að í hans herbúðum séu menn ánægðir með árangur nýliðins keppnistímabils.

„Eftir að mikil meiðsli herjuðu á liðið með fjarveru margra lykilmanna stigu yngri leikmenn upp og stóðu sig vel.  Það er frábær árangur og í samræmi við markmið deildarinnar að vera ávallt í hópi fjögurra bestu liða á Íslandi,“ sagði Þórir að lokum.

Auk Selfoss fá Haukar og FH sæti í Evrópubikarnum, sem áður nefndist Áskorendabikar Evrópu. Íslandsmeistarar Vals fá hins vegar sæti í Evrópudeildinni, sem áður nefndist EHF-bikarinn.

Þórir Haraldsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinStyrmir besti ungi leikmaðurinn – Lárus þjálfari ársins
Næsta greinSteinn bauð lægst í Suðurhólana