Kynningarfundur Olís- og Grill 66 deildanna í handbolta fór fram í gær og á honum var birt spá um árangur liðanna í deildunum í vetur en fyrir hana kusu þjálfarar, leikmenn og formenn deildanna.
Í Grill-66 deild kvenna er Selfoss spáð 2. sætinu og það ætti að duga liðinu til þess að komast upp um deild, því ungmennaliði Fram er spáð sigri í deildinni.
Í Olísdeild karla er Selfyssingum spáð 8. sæti, sem dugar þeim til þess að ná inn í úrslitakeppnina. Mikil meiðsli eru í herbúðum Selfoss þessa dagana og útséð með að svo verði fyrstu mánuði keppnistímabilsins. Valsmönnum er spáð deildarmeistaratitlinum og HK og Víkingum falli.
Ungmennalið Selfoss leikur í Grill-66 deild karla og er spáð 8. sætinu en ellefu lið leika í deildinni. ÍR er spáð efsta sæti í Grillinu.
Keppni á Íslandsmótinu hefst í kvöld. Fyrstu tveir leikir kvennaliðs Selfoss eru útileikir, gegn HK U 19. september og gegn Fjölni/Fylki 23. september. Fyrsti heimaleikur Selfosskvenna er gegn ÍR þann 15. október.
Ungmennalið Selfoss á heimaleik gegn ungmennaliði Vals í 1. umferð föstudaginn 24. september og karlalið Selfoss hefur keppni fimmtudaginn 23. september gegn Fram á útivelli.