Kvennalið Selfoss er komið í 8-liða úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrsta skipti eftir 2-0 sigur á ÍA á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.
Liðin mættust í deildinni síðastliðið mánudagskvöld og þá vann Selfoss öruggan 3-1 sigur. Hvort Selfyssingar hafi haldið að hlutirnir gerðust af sjálfu sér í framhaldinu er ekki vitað en leikurinn í kvöld fór að minnsta kosti ákaflega rólega af stað.
Fyrri hálfleikur einkenndist af miðjumoði og bæði lið fengu sitthvort hálffærið. Það var ekki fyrr en á 44. mínútu að Guðmunda Brynja Óladóttir stakk sér inn í vítateiginn hægra megin og óð upp að markinu þar sem hún renndi fyrir á Dagnýju Brynjarsdóttur. Hún átti ekki í vandræðum með að pútta boltanum í autt markið og Selfoss leiddi 1-0 í hálfleik.
Það var miklu meira stuð í síðari hálfleiknum, Selfyssingar mættu af meiri krafti til leiks og mark númer tvö lá í loftinu. Á 56. mínútu átti Blake Stockton sláarskot eftir hornspyrnu en þremur mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar varnarmaður ÍA virtist brjóta á Dagnýju. Skagakonur mótmæltu og höfðu sjálfsagt eitthvað til síns máls, en dómnum var ekki haggað. Guðmunda fór á vítapunktinn og skoraði af stöku öryggi.
Selfyssingar voru ekki hættir og áttu nokkrar álitlegar sóknir í kjölfarið, en Dagný komst næst því að bæta þriðja markinu við á 63. mínútu þegar hún skallaði frábæra fyrirgjöf Thelmu Bjarkar Einarsdóttur í þverslána.
Síðustu fimmtán mínúturnar féllu Selfyssingar nokkuð til baka og Skagamenn sóttu meira. Gestirnir komust næst því að skora á 83. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss en Alexa Gaul varði ágætt skot úr teignum í horn og hún kom svo aftur höndum á boltann eftir klafs í teignum uppúr hornspyrnunni.
Annars komust gestirnir lítið áleiðis gegn Selfossvörninni og þær vínrauðu sigldu sigrinum að lokum af öryggi í höfn.
Dregið verður í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins í hádeginu á þriðjudaginn.