Selfosskonur fallnar

Lið Selfoss er fallið eftir sex ára veru í efstu deild. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu er fallið niður í Lengjudeildina eftir 2-1 tap gegn ÍBV á útivelli í dag.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í úrslitakeppni liðanna í neðri hluta deildarinnar. Falldraugurinn sem hefur vofað yfir Selfyssingum í allt sumar lét loks til skarar skríða og liðið því fallið þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir kom liðinu yfir strax á 3. mínútu þegar hún fylgdi eftir sláarskoti Barbáru Sólar Gísladóttur. Selfoss hélt áfram að sækja og Sif Atladóttir átti stangarskot af löngu færi þremur mínútum áður en Olga Sevcova jafnaði fyrir ÍBV eftir að fyrirgjöf frá hægri hafði farið í gegnum allan vítateig Selfoss. Leikurinn var í járnum í kjölfarið og Selfyssingar pressuðu af krafti og komust í ágæt færi.

Staðan var 1-1 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var meira og minna í eigu Selfyssinga, sem voru mun sterkari aðilinn. Þeim tókst hins vegar ekki að nýta færin og fengu blauta tusku í andlitið þremur mínútum fyrir leikslok þegar Sevcova skoraði aftur eftir skyndisókn og tryggði ÍBV 2-1 sigur.

Selfoss er með 11 stig á botni deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið mun leika í B-deild að ári eftir sex ára dvöl í efstu deild.

Fyrri greinSelfoss spáð beina leið upp
Næsta greinTvær Lindur í Studio Sport