Selfyssingum er spáð 7. sæti bæði í Olís-deild karla og kvenna í handbolta á komandi keppnistímabili.
Spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna félaganna var kynnt í dag. ÍBV er spáð Íslandsmeistaratitlinum í karlaflokki og Fram í kvennaflokki.
Selfyssingar eru í 7. sæti í spánni karlamegin. Selfoss varð í 5. sæti í fyrra í tíu liða deild, en nú eru tólf lið í efstu deild. Patrekur Jóhannesson er nýr þjálfari liðsins og hefur Selfyssingum gengið ágætlega á undirbúningstímabilinu og sigruðu meðal annars á Ragnarsmótinu.
Kvennaliðinu er spáð sjöunda og næstneðsta sæti, sama sæti og liðið hafnaði í á síðasta keppnistímabili. Áfram eru átta lið í kvennadeildinni og kvennalið Selfoss er einnig með nýja þjálfara en það eru Örn Þrastarson og Rúnar Hjálmarsson.
Í Grill 66 deildinni, sem áður hét 1. deildin, er Mílunni spáð 8. sæti af tíu liðum. Mílan varð í neðsta sæti í tólf liða deild á síðasta keppnistímabili.
Keppni í Olís-deild karla hefst á sunnudaginn kl. 19:30 með leik Stjörnunnar og Selfoss í Mýrinni í Garðabæ. Fyrsti heimaleikur Selfoss er hins vegar sunnudaginn 17. september þegar nýliðar Fjölnis koma í heimsókn.
Kvennaliðið hefur leik á heimavelli þriðjudaginn 12. september þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Vallaskóla.
Mílan á einnig heimaleik í 1. umferð gegn ungmennaliði Hauka föstudaginn 15. september.