Bæði kvenna- og karlalið Selfoss í knattspyrnu hófu keppni í deildarbikarnum í dag og töpuðu bæði liðin sínum leikjum.
Kvennaliðið heimsótti Keflavík í Reykjaneshöllina í A-deild Lengjubikarsins og varð úr mikil markaveisla sem heldur var Keflvíkingum í vil. Eftir hálftíma leik var staðan orðin 3-0 en Unnur Dóra Bergsdóttir minnkaði muninn fjórum mínútum fyrir hálfleik. Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Keflavík skoraði þrjú mörk á þremur mínútum og staðan var 6-1 í hálfleik. Keflavík komst í 7-1 í upphafi seinni hálfleiks en mínútu síðar minnkaði Þóra Jónsdóttir muninn í 7-2. Keflavík átti svo lokaorðið korteri fyrir leikslok – lokatölur 8-2.
Karlaliðið mætti ÍA í Akraneshöllinni í A-deild Lengjubikarsins. Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir strax á 5. mínútu en ÍA svaraði fyrir sig með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn. Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til þrjár mínútur voru eftir en þá skoruðu Skagamenn þriðja markið og lokatölur urðu 3-1.