Fulltrúar FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, skoðuðu Selfossvöll í morgun en völlurinn er fyrsti keppnisvöllurinn sem sáð er í á Íslandi.
„Þeir koma hingað til lands og taka út nokkra velli. Það hafði spurst út að við hefðum sáð í völlinn og þess vegna þótti þeim forvitnilegt að skoða hann,“ segir Björn Ólafsson, greenkeeper á golfvellinum í Öndverðarnesi, sem vann að uppbyggingu nýja vallarins á Selfossi með Siggeiri Ingólfssyni, fyrrverandi yfirmanni Umhverfisdeildar Árborgar.
Dr. Steven W. Baker tók sýni úr vellinum og skoðaði m.a. rótarlagið sem hann segir að sé það lengsta sem hann hefur séð. „Hann slitmældi einnig völlinn til að sjá hvað hann þolir og við erum að fá sama stuðul á völlinn og vellirnir í enska boltanum, þannig að umsögn Baker er virkilega fín,“ segir Björn.
Sveitarfélagið mun fá skýrslu frá Baker um úttekt hans á vellinum og segir Björn að það hafi gríðarlega mikið að segja. „Þessi maður er eitt af stærri nöfnunum í þessum golf- og fótboltabransa. Hann fór m.a. yfir áburðarplan okkar og umhirðu vallarins sem við munum fara eftir fram á haustið. Svona ráðgjöf myndi kosta sveitarfélagið milljón þannig að það er frábært að fá þessa heimsókn og skýrsluna í kjölfarið,“ segir Björn og þakkar Siggeiri Ingólfssyni fyrir það hversu vel hefur heppnast að rækta völlinn.
„Geiri barðist fyrir því að það yrði sáð í völlinn í stað þess að þökuleggja hann og það var frábær ákvörðun því þú færð miklu betri völl fyrir vikið, eins og kemur í ljós núna, auk þess sem það sparar sveitarfélaginu um 20 milljónir króna,“ segir Björn.
„Annars er mikil synd að Geiri skuli vera hættur hjá bænum, hann var hjartað og sálin í þessu, vökvandi völlinn launalaust á nóttunni og sem fagmaður þá græt ég það mikið að hann sé farinn,“ sagði Björn að lokum.
Á Selfossvelli Stuart Larman frá FIFA, Sveinbjörn Másson vallarstjóri, Siggeir Ingólfsson, dr. Steven W. Baker, Björn Ólafsson og Jóhann Kristinsson frá KSÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl