Knattspyrnuvellirnir á íþróttavallarsvæðinu á Selfossvelli munu ganga undir nafninu „JÁVERK-völlurinn“ en knattspyrnudeild Umf. Selfoss hefur gert tveggja ára styrktarsamning við verktakafyrirtækið JÁVERK.
Nafnið nær yfir aðalvöllinn og gervigrasvöllinn en nokkuð algengt er að knattspyrnudeildir hér á landi útfæri styrktarsamninga á þennan hátt. Þannig mættust Selfoss og ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi í gærkvöldi og Haukarnir leika sína heimaleiki í 1. deildinni á Schenkervellinum í Hafnarfirði.
Nafnabreytingin var samþykkt á fundi aðalstjórnar Ungmennafélags Selfoss í vikunni og erindið verður svo lagt fyrir bæjarráð Árborgar í næstu viku til endanlegrar samþykktar.