Selfyssingar á flugi gegn Vængjunum

Arnór Logi Hákonarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann öruggan sigur á Vængjum Júpíters þegar liðin mættust í Iðu á Selfossi í kvöld í Grill-66 deild karla í handbolta.

Gestirnir skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum en Selfoss jafnaði 5-5 eftir rúmlega tíu mínútna leik og náði í kjölfarið tveggja marka forystu. Vængirnir jöfnuðu aftur en Selfoss skoraði síðustu tvö mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 14-12 í leikhléi.

Í seinni hálfleik var sigur Selfoss aldrei í neinni hættu. Liðið náði mest átta marka forystu og fínn varnarleikur Selfyssinga kom í veg fyrir að Vængirnir næðu flugi. Lokatölur urðu 29-21.

Arnór Logi Hákonarson var markahæstur Selfyssinga með 8/3 mörk, Sölvi Svavarsson 3/1, Gunnar Flosi Grétarsson og Elvar Elí Hallgrímsson 3, Ísak Gústafsson, Andri Dagur Ófeigsson, Tryggvi Sigurberg Traustason, Haukur Páll Hallgrímsson og Sæþór Atlason skoruðu allir 2 mörk og þeir Guðjón Baldur Ómarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson skoruðu sitt markið hvor.

Alexander Hrafnkelsson varði 9 skot í marki Selfoss og var með 39% markvörslu og Hermann Guðmundsson varði 1 skot og var með 12% markvörslu.

Selfyssingar hafa fimm stig eftir fimm leiki og eru um miðja deild.

Fyrri greinFrábær liðsheild Þórsara olli Stjörnuhrapi
Næsta greinHrunamenn og Selfoss með góða sigra