Selfoss tók á móti Fram í Olísdeild karla í handbolta í dag í hörkuleik í Set-höllinni.
Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum en um miðjan fyrri hálfleikinn fór sóknin að hiksta og Framarar breyttu stöðunni úr 8-5 í 9-9. Eftir það var jafnt á öllum tölum og staðan í hálfleik var 14-14.
Selfoss skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náði fljótlega fjögurra marka forskoti. Framarar fylgdu þeim eftir allan seinni hálfleikinn en náðu aldrei að brúa bilið og Selfoss sigraði að lokum 32-30 en Framarar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins.
Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 7 mörk fyrir Selfoss og Ísak Gústafsson 7/1, Elvar Elí Hallgrímsson skoraði 5 mörk og var frábær í vörninni með 9 löglegar stöðvanir. Einar Sverrisson skoraði 4 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Sigurður Snær Sigurjónsson 2 og þeir Sölvi Svavarsson, Hannes Höskuldsson, Tryggvi Sigurberg Traustason og Sæþór Atlason skoruðu allir 1 mark.
Sverrir Pálsson var öflugur í vörninni hjá Selfyssingum með 8 löglegar stöðvanir og Vilius Rasimas var flottur í markinu, varði 15/2 skot og var með 35% markvörslu.
Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar með 13 stig en Fram er í 4. sæti með 15 stig.