Handknattleiksdeild Umf. Selfoss lýsir undrun sinni yfir þeirri niðurstöðu dómstóls HSÍ að félagið eigi ekki aðild að kæru vegna mistaka í framkvæmd leiks sem brjóta klárlega í bága við leikreglur HSÍ og hafa afgerandi áhrif á lokaniðurstöðu Olísdeildar karla.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu handknattleiksdeildar Selfoss sem send var út í dag. Í yfirlýsingunni óskar Umf. Selfoss ÍBV til hamingju með deildarmeistaratitilinn.
Langsótt að Selfoss eigi ekki aðild að málinu
Selfoss kærði framkvæmd leiks Fram og ÍBV þar sem ÍBV tryggði sér naumlega deildarmeistaratitilinn en dómstóll HSÍ vísaði kærunni frá þar sem Selfoss var ekki aðili að umræddum leik. Dómstóllinn tók hins vegar ekki afstöðu í því hvort Selfoss hefði hagsmuni af niðurstöðu málsins.
„Ótvírætt er að félagið hefur lögmæta hagsmuni af niðurstöðu málsins og uppfyllir þar með skilyrði 33. gr. laga HSÍ sem er nægilegt skilyrði fyrir aðild að málinu. Sú niðurstaða að uppfylla verði tvenn skilyrði sömu greinar er að mati deildarinnar röng túlkun sem ekki getur staðist þar sem félag sem misgert er við hefur að sjálfsögðu alltaf hagsmuni af niðurstöðu. Þá er langsótt sú túlkun að í opinberu móti sem HSÍ ber ábyrgð á eigi félagið ekki aðild eins og hér stendur á,“ segir í yfirlýsingu Selfoss.
Umdeilt að bæta við eftirlitsmanni á alla leiki
Selfyssingar telja afar mikilvægt að allir aðilar sem koma að handboltastarfi á Íslandi haldi stöðugt áfram að efla og auka fagmennsku í handknattleik á öllum stigum, þar á meðal í framkvæmd móta, leikja, dómgæslu, eftirliti, þjálfun og umgjörð allri hjá báðum kynjum og öllum aldursflokkum.
„Sú ákvörðun að bæta eftirlitsmanni HSÍ á alla leiki í Olísdeild karla var umdeild, ekki síst vegna kostnaðar fyrir félögin. Þeir hafa skilgreint hlutverk á leikjum og eiga að hafa góða yfirsýn yfir skiptisvæðið allan tímann og geta gripið inn í, ef nauðsyn krefur og í lok hálfleikja hafa þeir aðallega það hlutverk að fylgjast með því að löglega sé staðið að innáskiptingum. Keppnislið verða að gera þá kröfu að þessir starfsmenn leiksins eins og aðrir skili sínu hlutverki af fagmennsku og framfylgi réttum leikreglum,“ segir í yfirlýsingu Selfyssinga.
Ærin ástæða til áfrýjunar
Þar sem páskahelgi og úrslitakeppni er framundan hefur handknattleiksdeild Selfoss ákveðið að áfrýja úrskurðinum ekki til áfrýjunardómstóls HSÍ þrátt fyrir að hafa til þess ærna ástæðu, enda er ekki löngun félagsins til að vinna deildarmeistaratitil í dómsal. Kæran hefur þegar skilað þeim árangri að vekja verðskuldaða athygli á afdrifaríkum afleiðingum mistaka við framkvæmd leiks Fram og ÍBV. Handknattleikshreyfingin verður að hafa kjark til að horfast í augu við það þegar afdrifarík mistök verða í framkvæmd leikja og bæta þar úr.
„Selfyssingar munu hér eftir sem hingað til skila sínu framlagi á keppnisvellinum af heiðarleika í samræmi við leikreglur og hlutlæga framkvæmd leikja. Við óskum ÍBV til hamingju með deildarmeistaratitilinn í Olísdeild karla 2017 – 2018 og hlökkum til komandi átaka í úrslitakeppninni,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.