Selfoss mætir Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikars-kvenna í knattspyrnu eftir ótrúlegan 3-2 sigur á Val á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag.
Selfyssingar misnotuðu tvær vítaspyrnur í upphafi leiks en Þórdís Aikmann varði þá frá Guðmundu Óladóttur og svo aftur endurtekna spyrnu frá Donna-Kay Henry.
Þetta klúður sló Selfyssinga útaf laginu og Valskonur svöruðu verðskuldað með tveimur mörkum á stuttum tíma. Elín Metta Jenssen kom þeim yfir á 18. mínútu og Lilja Dögg Valþórsdóttir bætti öðru við á 30. mínútu.
Thelma Björk Einarsdóttir skoraði hins vegar dýrmætt mark fyrir Selfoss á 44. mínútu með frábæru skoti utan af kanti sem sveif yfir Þórdísi.
Staðan var 1-2 í hálfleik og fjörið byrjaði svo aftur strax á fjórðu mínútu seinni hálfleiks þegar dómarinn dæmdi hendi á Selfyssinga og Valur fékk víti. Chante Sandiford varði hins vegar örugglega frá Elínu Mettu.
Bæði lið áttu færi í fyrri hluta seinni hálfleiks en þegar leið á urðu sóknir Selfyssinga þyngri og þyngri.
Á 79. mínútu jafnaði Dagný Brynjarsdóttir 2-2 með skoti af stuttu færi og draumur Selfyssinga rættist svo í uppbótartíma þegar Guðmunda fleytti aukaspyrnu Thelmu Bjarkar yfir Þórdísi og tryggði Selfyssingum sigurinn.