Selfyssingar beinir í baki þrátt fyrir tap

Guðni Ingvarsson skoraði sjö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss eru úr leik í EHF-bikar karla í handbolta eftir 29-31 tap á heimavelli í kvöld gegn HK Malmö frá Svíþjóð.

Malmö vann fyrri leikinn 33-27 og einvígið því samtals með átta marka mun.

Ungu mennirnir vaxa í svona verkefni
„Við getum farið með nokkuð beint bak út úr þessu,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann var ánægður með leik sinna manna í dag þrátt fyrir tapið.

„Við erum að taka mikið út úr þessu verkefni. Við erum að þróa okkar leik og menn vaxa heilmikið af því að spila við svona öflug lið. Við erum með leik allan tímann og það gefur okkur mikið. Ég sá það strax í leiknum á móti ÍBV síðasta miðvikudag, þegar við vorum að koma úr fyrri leiknum í Svíþjóð. Við mættum með sjálfstraust og kraft. Og nú er það bara næsta verkefni á miðvikudaginn, að taka tvö stig hér heima á móti KA,“ bætti Grímur við.


Kaflaskiptur leikur í kvöld
Selfoss hafði frumkvæðið stærstan hluta fyrri hálfleiks og leiddi með tveimur mörkum í leikhléi, 16-14. Munurinn varð mestur þrjú mörk í upphafi seinni hálfleiks en þá svöruðu Svíarnir fyrir sig og komust yfir, 20-21, þegar rúmar 40 mínútur voru liðnar af leiknum. Það sem eftir lifði leiks eltu Selfyssingarnir, en þeir náðu aldrei almennilegu áhlaupi á hið sterka lið Malmö.

Þrír leikmenn með samtals 21 mark
Guðni Ingvarsson og Haukur Þrastarson skoruðu 7 mörk fyrir Selfoss, Hergeir Grímsson 7/2 og þeir Alexander Már Egan, Magnús Öder Einarsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu allir 2 mörk.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 7 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 5.
Fyrri greinHrönn og Örn sæmd gullmerki UMFÍ
Næsta greinRafmagnslaust eftir áflug á Selfosslínu 2