Selfoss varð í dag bikarmeistarar 4. flokks karla yngri í handbolta þegar liðið sigraði FH 35-30 í úrslitaleik í Laugardalshöll. Staðan í hálfleik var 17-17.
Mikil spenna var í leiknum en Selfoss var sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Selfoss komst í 22-18 í upphafi seinni hálfleiks og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Forskotið var tvö mörk mestan hluta seinni hálfleiks en á lokakaflanum gáfu Selfyssingar í og unnu með fimm marka mun.
Maður leiksins var valinn Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss, en hann skoraði 21 mark í leiknum og átti sannkallaðan stórleik. Haukur var líka með frábæra skotnýtingu en hann skaut 23 sinnum að marki. Haukur klikkaði á fyrsta skoti sínu í leiknum en skoraði svo úr tuttugu skotum í röð áður en hann klikkaði aftur.
Haukur var, sem fyrr segir, markahæstur Selfyssinga með 21 mark, Sölvi Svavarsson skoraði 6, Haukur Páll Hallgrímsson og Aron Emil Gunnarsson 3 og þeir Þorsteinn Freyr Gunnarsson og Bergsveinn Vilhjálmur Ásmundsson skoruðu sitt markið hvor.
Alexander Hrafnkelsson varði 16/1 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu.
Auk ofantalinna skipa liðið þeir Kári Kristinsson, Gunnar Flosi Grétarsson, Fannar Ársælsson, Einar Kári Sigurðsson, Daníel Garðar Antonsson, Daníel Karl Gunnarsson og Einar Ágúst Ingvarsson.