Selfyssingar bikarmeistarar í körfubolta

Bræðurnir Marvin og Sæmundur Valdimarssynir frá Selfossi urðu bikarmeistarar í körfubolta um síðustu helgi með liði Stjörnunnar frá Garðabæ. Þetta var fyrsti bikartitill bræðranna.

“Þetta var alveg yndislegt og ég náði þarna langþráðu markmiði,” sagði Marvin í samtali við sunnlenska.is en hann hefur marga fjöruna sopið í körfunni í gegnum árin. “Þetta er búið að vera markmiðið í nokkur ár eftir að maður kom í Stjörnuna, stóran klúbb með mikinn metnað,” segir Marvin sem er nú á sínu þriðja tímabili með Stjörnunni en Sæmundur gekk til liðs við félagið í haust.

Marvin segir þá bræður sátta í Garðabænum þar sem vel sé haldið utan um félagið. “Mér líður frábærlega í Stjörnunni, þetta er klúbbur sem önnur félög mættu taka sér til fyrirmyndar hvað varðar stjórnun og uppbyggingu. Yngri flokkarnir eru sterkir og þeim er veitt gott aðhald. Það er líka mikill áhugi hjá bæjarfélaginu að styrkja íþróttalífið. Hvort sem það er fótbolti eða körfubolti þá er vel haldið utan um hlutina í Garðabænum og við fáum mikinn stuðning.”

Sæmi á framtíðina fyrir sér
Marvin er 31 árs gamall og á langan feril að baki en Sæmundur bróðir hans er 19 ára. Marvin segir að Sæmundur eigi framtíðina fyrir sér í körfunni ef hann heldur rétt á spöðunum.

“Ég sagði honum að hann þyrfti að prófa að spila með þeim bestu og að það væri mikilvægt fyrir hann að taka næsta skref eftir að hafa spilað í 1. deildinni með FSu. Úrvalsdeildin er miklu sterkari og ef hann ætlaði að verða betri þá þyrfti hann að taka stökkið og spila með betri leikmönnum. Ég held að hann sjái ekki eftir því, strax kominn með titil í safnið nítján ára gamall og æfir með frábærum leikmönnum eins og Justin Shouse og Jovan Zdravevski,” segir Marvin sem er ánægður með að Sæmundur valdi Stjörnuna.

“Það gefur mér heilmikið að hafa hann í sama liði. Við spilum gegn hvor öðrum og dekkum hvorn annan á hverjum degi. Sæmi verður góður ef hann heldur rétt á spöðunum. Hann er mikill íþróttamaður og verður betri með hverju árinu sem líður.”

Shouse er gull af manni
En það eru fleiri Sunnlendingar í liðinu því Mýrdælingar eiga töluvert í Justin Shouse sem kom til Íslands árið 2005 til þess að spila með Umf. Drangi í Vík sem þá lék í 1. deildinni. Marvin ber honum söguna vel eins og allir sem kynnst hafa Shouse – og hann á enn sína aðdáendur í Mýrdalnum.

“Já, Shouse er gull af manni, alger öðlingur og það er mikið happ fyrir íslenskan körfubolta að hann skuli hafa ílengst hér á landi. Hann er með brjálað keppnisskap og mikla hæfileika, er mikill leiðtogi og virkilega vinsæll jafnt innan vallar sem utan,” segir Marvin.

Sex liða toppbarátta
Lokasprettur Íslandsmótsins í körfubolta er framundan og með bikarmeistaratitilinn undir beltinu eru Stjörnumenn til alls líklegir. Marvin hefur glímt við meiðsli á kálfa undanfarnar vikur en er allur að koma til með hjálp sjúkraþjálfara Stjörnunnar.

“Ég er í endurhæfingu en það er spilað þétt og ég fæ aldrei nægan tíma til að ná mér alveg 100 prósent. Lokaumferðirnar í deildinni verða spennandi. Þetta er svakalega jafnt og allir vinna alla. Það má segja að þetta sé sex liða toppbarátta. Nú er bara fókusinn á að vera í topp fjórum til að fá heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Svo byrjar bara ný keppni þegar úrslitakeppnin hefst og þá skiptir mestu máli að toppa á réttum tíma,” sagði nýkrýndi bikarmeistarinn að lokum.

Fyrri greinSkráning í Músiktilraunir hafin
Næsta greinEndalaust skemmtilegt starf