Selfyssingar töpuðu gegn Haukum í stórleik kvöldsins í Olísdeild karla í handbolta, 25-20 á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og lítið skorað. Staðan var 8-8 þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þá náðu Haukar tveggja marka forskoti og leiddu 11-9 í hálfleik.
Munurinn var orðinn fjögur mörk í upphafi seinni hálfleiks og í kjölfarið spiluðu Haukarnir hörkuvörn og hleyptu Selfyssingum hvergi nærri.
Skotnýting Selfyssinga var léleg í leiknum, Alexander Egan og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu úr öllum sínum skotum en aðrir leikmenn voru með um og undir 50% nýtingu. Besti maður vallarins var markvörður Hauka, Björgvin Páll Gústafsson, með 18/1 varið skot.
Ragnar Jóhannsson skoraði 5 mörk fyrir Selfoss, Hergeir Grímsson 5/2, Guðmundur Hólmar Helgason 4/1, Alexander Egan 3 og þeir Atli Ævar Ingólfsson, Einar Sverrisson og Tryggvi Þórisson skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas varði 15 skot í marki Selfoss og var með 37% markvörslu.