Selfyssingar eru fallnir úr úrvalsdeild karla í handbolta eftir tap gegn Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld, 33-24.
Haukar skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins en Selfoss náði að minnka muninn í 7-5 um miðjan fyrri hálfleikinn. Haukar tóku þá aftur á sprett en Selfyssingar létu ekki segjast og minnkuðu muninn aftur í tvö mörk, 16-14 í hálfleik.
Selfoss jafnaði 16-16 og fylgdi Haukum eins og skugginn fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks. Haukar reyndust hins vegar sterkari á lokakaflanum, þeir juku forskotið jafnt og þétt og að lokum skildu níu mörk liðin að.
Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 6 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 4, Gunnar Kári Bragason og Einar Sverrisson 3, Sölvi Svavarsson, Sæþór Atlason og Tryggvi Sigurberg Traustason 2 og þeir Sverrir Pálsson og Jason Dagur Þórisson skoruðu 1 mark hvor. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 5 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 2.
Síðasti leikur Selfyssinga í úrvalsdeildinni verður næstkomandi föstudagskvöld, þegar Grótta kemur í heimsókn í Set-höllina.