Selfyssingar eru fallnir úr N1-deild karla í handbolta eftir tap gegn Valsmönnum á útivelli í kvöld, 25-19. Á sama tíma lagði Afturelding Akureyri, 21-24.
Með sigrinum á deildarmeisturunum fór Afturelding þar með í 10 stig en Selfoss er með 8 á botninum þegar ein umferð er eftir. Liðin mætast í lokaumferðinni en Selfyssingum dugar ekki sigur í þeim leik þar sem Afturelding hefur betur í innbyrðis viðureignum.
Leikur Vals og Selfoss var í járnum fyrsta korterið en Selfyssingar réðu illa við gamla félaga sinn, Valdimar Fannar Þórsson, sem skoraði grimmt í upphafi. Valur komst í 10-4 en Selfyssingar réttu sinn hlut undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 11-8 í hálfleik.
Sóknarleikur Selfyssinga var í molum í seinni hálfleik og liðið skoraði aðeins þrjú mörk fyrstu tuttugu mínúturnar. Valur komst í 18-11 þegar tíu mínútur voru eftir og munurinn jókst svo í átta mörk, 22-14. Selfyssingar minnkuðu muninn lítillega á lokamínútunum en hiti var í mönnum og fengu tveir Valsmenn rautt spjald á lokamínútunum. Valdimar Þórsson hafði farið sömu leið snemma í seinni hálfleik.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk og Sebastian varði 17 skot í markinu.