Selfyssingar fallnir niður í 2. deild

Selfoss mun spila í 2. deild karla í knattspyrnu að ári. Það var ljóst eftir að 21. umferð Inkassodeildarinnar lauk í dag, þar sem Selfoss tapaði gegn ÍA og Magni sigraði Fram.

Þar með fóru Magnamenn uppfyrir Selfyssinga með 16 stig og skildu þá vínrauðu eftir í botnsætinu með 15 stig. ÍR (18 stig) og Magni eru fyrir ofan Selfoss og þau lið mætast í lokaumferðinni. Selfyssingar komast ekki uppfyrir bæði liðin, þó að þeir myndu ná að sigra Njarðvík í lokaumferðinni.

„Það sást alveg að það er ekkert mikið á milli, við erum að spila ágætist sóknarbolta þó að við séum frekar „direct“ núna og erum ekki mikið að halda honum. Við áttum alveg 2-3 sénsa en þegar við erum ekki nógu einbeittir þá þarf ekkert mikið til að fá á sig mörk. Ég vona bara að við gerum það besta úr þessu, sjá hvað gerist, hverjir verða áfram og hverjir ætla að taka slaginn og koma þessu liði upp aftur,“ sagði Ingi Rafn Ingibergsson í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Skagamenn voru sterkari í fyrri hálfleik á Selfossi í dag og komust yfir á 17. mínútu. Það var fátt um færi hinu megin á vellinum en ÍA skoraði aftur eftir hornspyrnu á 43. mínútu og staðan var 0-2 í hálfleik.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik en tókst þó ekki að skora. Á 67. mínútu fengu bæði Hrvoje Tokic og Kenan Turudija rautt spjald fyrir brot og það gerði Selfyssingum lítinn greiða að þurfa að klára leikinn níu á móti ellefu.

Liðsmunurinn háði Selfyssingum lítið til að byrja með og Guðmundur Axel Hilmarsson minnkaði muninn í 1-2 á 71. mínútu með skallamarki eftir aukaspyrnu Inga Rafns. Selfyssingar reyndu eins og þeir gátu að jafna en fengu mark í bakið úr skyndisókn á lokamínútunni.

Fyrri greinNýrri bók Guðmundar fagnað í Húsinu
Næsta greinÆgir lokaði sumrinu með tapleik