Nú í hádeginu var dregið í 32-liða úrslitum VISA-bikars karla. Selfoss dróst á móti 1. deildarliði ÍA á útivelli. Fylgst var með drættinum í beinni hér á sunnlenska.is.
12:00 Fulltrúar Selfoss við dráttinn eru Ómar Valdimarsson, aðstoðarþjálfari og Þorsteinn Magnússon, varaformaður.
12:15 Nú fara hlutirnir að gerast. Menn háma í sig hádegisverð í boði KSÍ og drekka kók. Hvergerðingurinn Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, slær í glas og þaggar niður í mannskapnum.
12:18 Gylfi Orrason stýrir drættinum ásamt fulltrúum VISA.
12:19 Víðismenn eru fyrstir upp úr pottinum og þeir fá heimaleik á móti Fylki. Framarar fá heimaleik á móti ÍR.
12:20 Haukar fá heimaleik gegn Fjölni. Fulltrúi VISA dregur sitt lið, Víking R. úr pottinum og fulltrúi Víkinga velur sér Sindra úr 3. deildinni. Klókur.
12:21 Keflavík fær KS/Leiftur heima. KA menn fá HK. 1. deildarslagur þar. Grindavík dregst á móti Þór Ak.
12:23 3. deildarlið KB fær heimaleik á móti Víkingi Ó. Fjarðabyggð fær heimaleik gegn Njarðvík. Annar 1. deildarslagur þar.
12:25 BÍ/Bolungarvík fær Völsung en bæði lið leika í 2. deild. Þróttur Reykjavík fær Gróttu. Enn einn 1. deildarslagurinn.
12:26 Skagamenn koma upp úr pottinum og (væntanlega) eftir beiðni frá Hirti Hjartarsyni dregur Gísli Gíslason, formaður ÍA, SELFOSS.
12:28 Kliður fer um salinn þegar Breiðablik dregst á móti FH. Leiknir R fær Stjörnuna og Gulli Jóns og félagar í Val fá heimaleik gegn Aftureldingu.
12:29 Eyjamenn fá síðasta heimaleikinn og dragast væntanlega á móti KR sem eiga einu kúluna sem er eftir í pottinum.
Víðir – Fylkir
Fram – ÍR
Haukar – Fjölnir
Víkingur R – Sindri
Keflavík – KS/Leiftur
KA – HK
Grindavík – Þór
KB – Víkingur Ó
Fjarðabyggð – Njarðvík
BÍ/Bolungarvík – Völsungur
Þróttur R – Grótta
ÍA – Selfoss
Breiðablik – FH
Leiknir R. – Stjarnan
Valur – Afturelding
ÍBV – KR
Leikirnir fara fram 2. og 3. júní. Viðureign ÍA og Selfoss verður fimmtudaginn 3. júní.