Selfoss vann virkilega góðan sigur á Hetti á heimavelli í Gjánni á Selfossi í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 77-75.
Höttur byrjaði betur og leiddi nánast allan 1. leikhlutann, mest með átta stigum, en staðan að honum loknum var 15-19. Selfyssingar náðu 9-2 áhlaupi í upphafi 2. leikhluta og komust yfir 26-25 en gestirnir svöruðu aftur fyrir sig og leiddu 33-39 í leikhléi.
Höttur náði mest 12 stiga forskoti undir lok 3. leikhluta, 44-56, en í upphafi þess fjórða áttu Selfyssingar frábæran kafla þar sem þeir skoruðu 22 stig á móti 6 stigum gestanna. Selfoss komst þá yfir 69-65 og við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem heimamenn vörðu forskotið vel og fögnuðu góðum sigri.
Marvin Smith jr. var mikilvægur fyrir Selfyssinga í þessum leik, skoraði 27 stig og tók 15 fráköst. Snjólfur Stefánsson var sömuleiðis öflugur með 16 stig og 11 fráköst og þá var gaman að sjá aftur til Hlyns Hreinssonar í Selfossbúningnum. Hann skoraði 12 stig, öll utan þriggja stiga línunnar og þar af tvær stórar körfur á lokakaflanum.
Selfoss hefur nú 14 stig í 6. sæti deildarinnar en Höttur er með 18 stig í 2. sæti.
Tölfræði Selfoss: Marvin Smith Jr. 27/15 fráköst, Snjólfur Stefánsson 16/11 fráköst, Hlynur Hreinsson 12, Chaed Wellian 10/5 fráköst, Ari Gylfason 8, Björn Ásgeir Ásgeirsson 2, Maciek Klimaszewski 2.