Æfingu kvennaliðs Selfoss sem fara átti fram í kvöld hefur verið frestað vegna gruns um COVID-19 smit í leikmannahópi Selfoss.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í dag. Alfreð segir að leikmaður liðsins hafi fundið fyrir slappleika en eigi eftir að fá niðurstöðu úr sýnatöku.
Leikmaður Breiðabliks greindist með COVID-19 í gær en hún tók þátt í leik Selfoss og Breiðabliks í Pepsi Max deildinni þann 18. júní síðastliðinn, degi eftir að hún kom til landsins frá Bandaríkjunum. Leikmaðurinn greindist ekki jákvæð vegna COVID-19 í sýnatöku í Leifsstöð. Síðar kom í ljós að hún hafði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og fór því aftur í sýnatöku. Sú sýnataka reyndist jákvæð.
„Við höfum verið að vinna þetta með rakningarteymi Almannavarna í dag útfrá leiknum gegn Breiðablik þann 18. júní síðastliðinn. Við förum eftir öllum fyrirmælum þaðan og tökum hlutunum bara rólega í bili en það er enginn leikmaður okkar kominn í sóttkví,“ segir Alfreð.
Leik Selfoss/Hamars/Ægis/KFR gegn HK í bikarkeppni 2. flokks kvenna hefur einnig verið frestað en hann átti að fara fram í kvöld.