Selfoss vann mikilvægan sigur á Kórdrengjum í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 1-0 og eru Selfyssingar fyrsta liðið til þess að leggja topplið Kórdrengja að velli í deildinni í sumar.
Leikurinn var markalaus allt þar til á 83. mínútu að Danijel Majkic hamraði knöttinn í netið þegar hann barst til hans fyrir utan vítateig Kórdrengja.
Fram að því hafði verið um hörkuleik að ræða. Kórdrengir voru mun sterkari framan af leik og fengu nokkur hörkufæri í fyrri hálfleiknum. Seinni hálfleikurinn var jafnari og bæði lið höfðu átt góðar sóknir áður en Majkic braut loksins ísinn.
Selfyssingar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 13 stig, þremur stigum á eftir toppliði Kórdrengja. Það er útlit fyrir hörkuspennu á næstunni í 2. deildinni þar sem fjögur stig skilja að toppliðið og liðið í 6. sæti.