Ungmennalið Selfoss gekk berserksgang í kvöld og valtaði yfir botnlið Berserkja í Grill66 deild karla, þegar liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi.
Selfoss-U skoraði fyrstu fimm mörk leiksins og eftir fimmtán mínútna leik var staðan orðin 15-5 og ljóst að sigur heimamanna yrði ekki í neinni hættu. Staðan var 22-10 í hálfleik.
Veislan hélt áfram í seinni hálfleik þar sem Selfoss-U jók muninn enn frekar og vann að lokum sautján marka sigur, 42-25.
Sigurður Snær Sigurjónsson og Gunnar Flosi Grétarsson voru markahæstir Selfyssinga með 8 mörk hvor, Sölvi Svavarsson skoraði 6 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason 6/2, Elvar Elí Hallgrímsson og Hans Jörgen Ólafsson 4, Einar Ágúst Ingvarsson og Alexander Hrafnkelsson 2 og Árni Ísleifsson 2/1.
Alexander Hrafnkelsson varði 10/1 skot í marki Selfoss og var með 40% markvörslu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 3 skot og var með 23% markvörslu.
Selfyssingarnir ungu eru nú í 4. sæti deildarinnar með 18 stig en Berserkir eru áfram á botninum með 2 stig.