Selfyssingar fóru illa að ráði sínu þegar þeir tóku á móti Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 26-31.
Fyrstu tíu mínúturnar voru frábærar og Selfoss leiddi 9-2 að þeim loknum. Síðustu fimmtíu mínúturnar voru hins vegar slakar og Selfoss tapaði þeim kafla 17-29.
Eftir frábærar fyrstu tíu mínútur leiksins komust gestirnir inn í leikinn og þeir jöfnuðu 12-12 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Selfoss spilaði vörnina ekki af kappi á þessum kafla og um leið datt markvarslan niður.
Staðan var 15-15 í hálfleik og jafnt var á öllum tölum fyrstu fimmtán mínútur seinni hálfleiks, þangað til í stöðunni 21-21. Þá skoruðu Valsmenn fimm mörk í röð og kláruðu leikinn. Selfyssingar spiluðu langar sóknir en hikuðu þegar kom að því að binda á þær endahnútinn og að hika er sama og að tapa.
Guðjón Baldur Ómarsson og Atli Ævar Ingólfsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk, Einar Sverrisson skoraði 5 mörk en fyrsta mark hans í leiknum var 800. mark Einars fyrir Selfoss. Hergeir Grímsson skoraði 4/2 mörk, Nökkvi Dan Elliðason 3 og þeir Ragnar Jóhannsson og Gunnar Flosi Grétarsson skoruðu 1 mark hvor.
Vilius Rasimas varði 14 skot í marki Selfoss.
Þessi úrslit urðu til þess að liðin höfðu sætaskipti á töflunni. Valur hefur nú 21 stig í 5. sæti deildarinnar en Selfoss er með 20 stig í 6. sæti.