Selfyssingar í eldlínunni á EM

Níu Selfyssingar verða í eldlínunni á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fer í Reykjavík dagana 13. til 18. október næstkomandi.

Mótið er stærsti viðburður í fimleikum sem haldinn hefur verið hér á landi en mótið verður haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardalnum.

Á mótinu keppa níu Selfyssingar í þremur mismunandi landsliðum. Þau hafa undanfarna mánuði æfa stíft með landsliðum Íslands í hópfimleikum. Nú er komið að lokasprettinum og álagið og spennan eykst með hverjum deginum. Síðustu tvær vikurnar munu liðin æfa og hittast nær daglega til að fínpússa stökkin og dansinn fyrir mótið.

Þær Eva Grímsdóttir og Rakel Nathalie Kristinsdóttir keppa í fullorðinsflokki kvenna en Ísland vann gullverðlaun í þeim flokki á síðasta EM. Þess má geta að Rakel Nathalie keppti með blönduðu liði fullorðina á síðasta Evrópumóti og Eva keppti með unglingaliði kvenna sem hampaði Evrópumeistaratitlinum svo eftirminnilega.

Aron Bragason og Hugrún Hlín Gunnarsdóttir keppa í blönduðu liði fullorðinna en Ísland varð í fjórða sæti á síðasta EM í þeim flokki. Bæði Aron og Hugrún kepptu á síðasta Evrópumóti þá Hugrún í fullorðinsflokki en Aron í unglingaflokki.

Alma Rún Baldursdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Nadía Björt Hafsteinsdóttir og Rikharð Atli Oddsson keppa öll í blönduðu liði unglinga og þetta er þeirra frumraun á Evrópumótinu. Nadía Björt slasaðist rétt fyrir síðasta Evrópumót og missti af keppninni. Nú fær hún annað tækifæri til að sýna hvað í henni býr. Hin fjögur í blönduðu liði unglinga voru öll í bronsliði Selfyssinga á Norðurlandamótinu síðastliðið vor svo þau hafa núþegar nælt sér í smá reynslu fyrir stóra sviðið. Annar þjálfari blandaðs liðs unglinga er Selfyssingurinn Tanja Birgisdóttir.

Næstkomandi laugardag, þann 4. október kl. 16, verður keyrslumót íslensku liðanna húsakynnum Stjörnunnar í Garðabæ. Þá munu dómarar dæma liðin og gefa þeim punkta fyrir lokasprettinn.

Að sögn Olgu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra fimleikadeildar Umf. Selfoss, er full ástæða til að hvetja áhugasama að tryggja sér stúkusæti á þessa einstöku keppni. „Þarna gefst tækifæri til að horfa á sterkasta fimleikafólk Evrópu etja kappi og vera þrettándi maðurinn í liði Íslands sem nær að landa árangri á heimavelli. Stuðningur áhorfenda hefur allt að segja og eftir þrotlausar æfingar síðustu mánuði munu krakkarnir kunna vel að meta góðan stuðning úr stúkunni,“ segir Olga og bætir við að þannig verði mótið frábær upplifun bæði fyrir keppendur og stuðningsmenn.

Mótið hefst með setningu og keppni í undanúrslitum unglinga miðvikudaginn 15. október. Undanúrslit fullorðinna eru 16. október, lokakeppni unglinga 17. október og úrslit fullorðinna laugardaginn 18. október.

Nánari upplýsingar um mótið eru á heimasíðu mótsins og miða má kaupa á midi.is. Ef einhver vill aðstoða við mótahaldið sem sjálfboðaliði þá vantar enn fjölda sjálfboðaliða og áhugasamir geta haft samband við á netfangið grenigrund@islandia.is.

Fyrri greinFannst látinn á Óseyrartanga
Næsta greinBjörgvin Karl valinn í Evrópuúrvalið