Selfyssingar lyftu sér upp í 7. sæti 1. deildar karla í körfubolta með góðum sigri á Fjölni á heimavelli í kvöld, 88-81.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og hafði forystuna þegar komið var fram í hálfleik, 44-39. Fjölnismenn mættu af krafti inn í seinni hálfleikinn, þeir jöfnuðu 53-53 og leiddu 60-62 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Þar reyndust Selfyssingar sterkari því þeir voru skrefinu á undan allan 4. leikhlutann þó að Fjölnir hafi andað niður um hálsmálið á þeim á köflum.
Kennedy Aigbogun var stigahæstur Selfyssinga með 22 stig og 13 fráköst, Kristijan Vladovic skoraði 17 og Terrence Motley 12.
Hrunamenn og Hamar áttu einnig að mætast í kvöld en ekki var hægt að spila á Flúðum vegna kórónuveirusmita í hreppnum og Hamri var dæmdur 0-20 sigur.