Lið Selfoss varð á laugardaginn Íslandsmeistari í 4. flokki karla í handbolta er liðið sigraði Fram 23-18 í úrslitaleik á Íslandsmótinu.
Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur. Fram skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins en Selfoss komst yfir 4-3. Eftir það var leikurinn í járnum og staðan 9-9 í hálfleik.
Í byrjun síðari hálfleiks fóru Selfyssingar á kostum í sókninni og skoruðu sex mörk á fyrstu fimm mínútum leiksins. Staðan var þá orðin 15-11 en Fram minnkaði muninn strax í 15-14. Þá gáfu Selfyssingar aftur í, komust í 19-15 og litu ekki um öxl eftir það.
Sigurinn var fyllilega verðskuldaður en Selfyssingar voru mun sterkari allan seinni hálfleikinn, bæði í vörn og sókn. Liðið er því bæði Íslands- og bikarmeistari í sínum flokki.
Að leik loknum var Ómar Ingi Magnússon, sem er á mynd hér að neðan, valinn maður leiksins.
Ljósmynd/HSÍ Eyjólfur