Kvennalið Selfoss varð í dag Íslandsmeistari í innanhússknattspyrnu, futsal, eftir úrslitaleik gegn Álftanesi á Selfossi í dag.
Í fyrri umferð mótsins fyrir hálfum mánuði vann Selfoss öruggan sigur á Hvíta riddaranum, 11-1 og gerði 1-1 jafntefli við Álftanesi.
Í dag mættust liðin svo í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi. Þar vann Selfoss Hvíta riddarann 6-0 og þá tók við hreinn úrslitaleikur gegn Álftanesi þar sem Selfoss vann öruggan 5-1 sigur.
Þetta er í annað skiptið sem Selfoss vinnur Íslandsmeistaratitilinn í futsal en liðið sigraði síðast árið 2016. Í fyrra fengu Selfosskonur silfur um hálsinn eftir tap úrslitaleik gegn Álftanesi og hefndu þær þeirra ófara í dag.