Selfyssingar kátir í Höllinni

Selfyssingar girtu sig í brók í síðari hálfleik og sýnd þá sínar bestu hliðar þegar þeir lögðu Þróttara að velli í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Laugardalshöllinni voru 19-35.

Selfyssingar voru ekki á tánum í fyrri hálfleik þar sem þeir hefðu samkvæmt bókinni átt að hrista Þróttara af sér. Varnarleikur liðsins var hins vegar ekki nógu góður og þeir vínrauðu gátu þakkað markverðinum Helga Hlynssyni fyrir að hafa forystuna í hálfleik, 12-14.

Það var hins vegar allt annað að sjá til liðsins í síðari hálfleik þar sem Selfyssingar léku á alls oddi. Selfoss stakk af í upphafi síðari hálfleiks og eftir tæplega kortersleik var staðan orðin 15-25. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Selfyssinga sem sigruðu að lokum með sextán marka mun.

Einar Sverrisson og Atli Kristinsson áttu fínan leik fyrir Selfyssinga. Einar skoraði níu mörk og Atli sjö, auk þess sem hann átti sjö stoðsendingar og stóð sig virkilega vel í vörninni. Matthías Halldórsson lét einnig vel til sín taka í varnarleiknum og skoraði að auki þrjú mörk. Einar Pétur Pétursson og Hörður Bjarnarson settu boltann einnig þrívegis í netið og þeir Jóhannes Snær Eiríksson, Jóhann Gunnarsson, Magnús Magnússon, Gunnar Ingi Jónsson og Sverrir Pálsson skoruðu allir tvö mörk.

Helgi Hlynsson var í feiknastuði í markinu og varði 25 skot með 59,5% markvörslu og Hermann Guðmundsson átti fína innkomu í sínum fyrsta meistaraflokksleik, varði 4 skot og var með 66,6% markvörslu.

Að sex umferðum loknum eru Stjarnan og Selfoss á toppi deildarinnar með tíu stig. Víkingur kemur þar á eftir með níu stig og ÍBV hefur sjö stig en á leik til góða á liðin fyrir ofan.

Fyrri greinHamar stal stigum í Kópavogi
Næsta greinForsmekkur að jólunum