Selfyssingar keyrðu hratt til sigurs

Hans Jörgen Ólafsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss vann góðan sigur á ungmennaliði Hauka í Grill-66 deild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í gærkvöldi.

Selfyssingar keyrðu hratt í upphafi leiks og eftir átta mínútur var staðan orðin 10-3. Munurinn varð mestur tíu mörk í fyrri hálfleik en Haukar minnkuðu muninn fyrir leikhlé og staðan var 21-15 í hálfleik.

Haukar minnkuðu muninn í þrjú mörk snemma í seinni hálfleik og eltu Selfyssinga eins og skugginn allan hálfleikinn. Forysta Selfoss-U var þó nokkuð örugg en Haukar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins á lokamínútunni og lokatölurnar urðu 34-32.

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Sæþór Atlason og Gunnar Kári Bragason skoruðu 7, Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson 2 og Patrekur Þór Öfjörð 1. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 11 skot í marki Selfoss og Karl Jóhann Einarsson 8.

Selfoss-U er í 8. sæti deildarinnar með 7 stig en Haukar-U eru í 9. sætinu með 4 stig.

Fyrri greinHrunamenn hertu tökin í lokin
Næsta greinMargar hendur vinna létt verk