Selfoss vann Hamrana 29-35 þegar liðin mættust í 1. deild karla í handbolta á Akureyri í gær. Leikurinn var kaflaskiptur en staðan var 15-20 í hálfleik.
Heimamenn byrjuðu betur og komust í 4-2 en þá skoruðu Selfyssingar sjö mörk í röð og breyttu stöðunni í 4-9. Selfoss lét kné fylgja kviði og náði tíu marka forskoti, 9-19, en þá tóku Hamrarnir við sér og náðu 6-1 áhlaupi og staðan var 15-20 í hálfleik.
Selfyssingar héldu forskotinu í síðari hálfleik en Hamrarnir náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 27-30, undir lok leiksins en Selfyssingar gáfu ekki eftir heldur bættu í og náðu sex marka sigri.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk. Matthías Halldórsson skoraði 7 mörk, Ómar Magnússon 6, Hörður Másson 4, Magnús Magnússon 2 og þeir Örn Þrastarson, Daníel Róbertsson, Gunnar Páll Júlíusson, Sverrir Pálsson og Jóhannes Eiríksson skoruðu allir 1 mark.