Selfyssingar komnir á blað

Kenan Turudija skoraði eitt og lagði upp eitt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir heimsóttu Kórdrengi á Leiknisvöllinn í Breiðholti.

Selfoss komst fyrir strax á 4. mínútu þegar Kenan Turudija potaði boltanum í netið eftir fyrirgjöf Þormars Elvarssonar. Kórdrengir voru meira með boltann í kjölfarið en bæði lið áttu álitlegar sóknir áður en Hrvoje Tokic kom Selfyssingum í 2-0 á 32. mínútu. Aftur átti Þormar góða fyrirgjöf og Tokic stangaði boltann í netið.

Seinni hálfleikur var í járnum lengst af og hvorugt liðið gaf nokkuð eftir. Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum hljóp spenna í spilið þegar Kórdrengir minnkuðu muninn eftir góða sókn.

Hrvoje Tokic gerði hins vegar út um leikinn á 88. mínútu með þriðja marki Selfoss. Að þessu sinni var það Turudija sem lagði upp markið eftir lykilsendingu frá Aroni Einarssyni sem átti mjög góðan leik í kvöld.

Skömmu áður hafði leikmaður Kórdrengja fengið að líta rauða spjaldið og manni færri áttu Kórdrengirnir ekki möguleika á að svara fyrir sig.

Selfyssingar eru nú í 6. sæti Lengjudeildarinnar með 3 stig og mæta næst Þrótti á heimavelli að viku liðinni.

Fyrri greinSiggi Björns & Franziska Günther á Skyrgerðinni
Næsta greinSelfoss mætir Hamri í undanúrslitum