Selfyssingar unnu góðan sigur á Leikni á útivelli í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld og náðu þar í sín fyrstu stig í sumar. Lokatölur urðu 2-3 í fjörugum leik.
Bæði lið gerðu sig líkleg á upphafsmínútunum en Leiknismenn urðu fyrri til að skora. Þeir komust yfir á 13. mínútu en Selfyssingar jöfnuðu tíu mínútum síðar með marki Jóns Vignis Péturssonar. Jón tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Leiknis og boltinn sveif í netið.
Markvörður Leiknis kom í veg fyrir að Selfyssingar skoruðu fleiri mörk í fyrri hálfleik og staðan var 1-1 í leikhléi. Selfyssingar gerðu hins vegar út um leikinn á fyrsta korterinu í seinni hálfleik; Guðmundur Tyrfingsson skoraði á 50. mínútu eftir sendingu frá Valdimar Jóhannssyni og Valdimar var síðan sjálfur á ferðinni á 59. mínútu þegar hann fékk boltann frá Gary Martin eftir þunga sókn Selfoss.
Leiknir minnkaði muninn í 2-3 á 60. mínútu og hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum eftir það, þrátt fyrir ágæt færi Selfyssinga.
Selfoss er með 3 stig eftir tvær umferðir og lyfta sér upp í 6. sæti deildarinnar með sigrinum.