Selfyssingar komnir á blað

Atli Ævar Ingólfsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í handbolta í vetur þegar liðið heimsótti HK, lærisveina Sebastians Alexanderssonar, í Kórinn í dag.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu tuttugu mínútur leiksins en þá tóku Selfyssingar af skarið, bundu saman vörnina og HK skoraði ekki mark síðustu fjórtán mínúturnar í fyrri hálfleik. Staðan var 6-11 í leikhléi.

HK skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og gerði nokkur áhlaup í seinni hálfleiknum en Selfyssingar stigu á gjöfina á hárréttum tímapunktum og hleyptu heimamönnum aldrei fram úr sér. Að lokum höfðu þeir vínrauðu fjögurra marka sigur, 20-24.

Atli Ævar mættur aftur
Einar Sverrisson og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahætsir Selfyssinga með 4 mörk, þar af skoraði Einar 1 af vítapunktinum. Sveinn Andri Sveinsson, Sæþór Atlason, Hannes Höskuldsson og – haldið ykkur fast: Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 3 mörk fyrir Selfoss, Hans Jörgen Ólafsson 2 og þeir Gunnar Kári Bragason og Álvaro Mallols skoruðu sitt markið hvor.

Alexander Hrafnkelsson átti góðan leik í marki Selfoss, varði 14/1 skot og var með 41% markvörslu.

Fyrri greinGuðmundur gerður að heiðursfélaga og Gissur sæmdur gullmerki
Næsta greinBjarni ráðinn þjálfari Selfoss