Handknattleikslið Selfoss er komið í sumarfrí eftir naumt tap í oddaleik gegn Aftureldingu í umspili um sæti í efstu deild á næsta tímabili. Lokatölur að Varmá voru 23-21.
Afturelding var skrefinu á undan stærstan hluta leiksins en Selfyssingar nörtuðu í hælana á þeim allan seinni hálfleikinn. Varnarleikur Selfyssinga var ágætur en skyttur liðsins náðu sér ekki á strik í sókninni.
Selfoss náði að minna muninn í eitt mark, 22-21, þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum. Það reyndist síðasta mark þeirra vínrauðu í leiknum og Afturelding innsiglaði sigurinn þegar fimmtán sekúndur voru eftir af leiknum. Staðan í hálfleik var 11-8 fyrir Aftureldingu.
Andri Hrafn Hallsson var markahæstur Selfyssinga með sex mörk, Atli Kristinsson, Guðni Ingvarsson, Janus Daði Smárason og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir þrjú mörk og þeir Hörður Gunnar Bjarnason, Ómar Vignir Helgason og Matthías Örn Halldórsson skoruðu allir eitt mark.
Helgi Hlynsson átti mjög fínan leik og varði tuttugu skot í leiknum, þar af tvö vítaköst.