Selfyssingar voru langt frá sínu besta þegar þeir tóku á móti Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Afturelding hafði undirtökin nær allan tímann og sigraði 23-26.
Það gekk ekkert upp hjá Selfyssingum í upphafi leiks. Afturelding komst í 1-5 og Selfoss skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu 12 mínútunum. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari tók leikhlé í stöðunni 1-5 og í kjölfarið komu Selfyssingar sér inn í leikinn og jöfnuðu 11-11 þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Gestirnir skoruðu síðustu tvö mörkin fyrir leikhlé og staðan var 13-14 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en þá kom góður kafli hjá Aftureldingu sem skoraði fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 17-21. Gestirnir náðu fimm marka forskoti í kjölfarið og Selfyssingar fundu aldrei svarið. Selfoss spilaði mikið sjö á sex á lokakaflanum en árangurinn var enginn.
Besti maður Selfyssinga í kvöld var markvörðurinn Vilius Rasimas sem kom í veg fyrir enn stærra tap með því að verja 22/1 skot í leiknum. Hergeir Grímsson fór fyrir Selfyssingum í sókninni og skoraði 6 mörk og Tryggvi Þórisson var sterkur í vörninni með 12 brotin fríköst.
Aðrir markaskorarar Selfoss í kvöld voru Alexander Egan með 5 mörk, Atli Ævar Ingólfsson og Ragnar Jóhannsson skoruðu 3 og Ragnar sendi 5 stoðsendingar að auki. Einar Sverrisson og Hannes Höskuldsson skoruðu 2 mörk, Tryggvi Þórisson 1 og Gunnar Flosi Grétarsson 1.
Með tapinu misstu Selfyssingar Aftureldingu uppfyrir sig á stigatöflunni. Selfoss er nú í 5. sæti með 16 stig en Afturelding er í 4. sæti með 17 stig.